Rýni frá Auði A. Hafsteinsdóttur

auduAuður A. Hafsteinsdóttir Róbert Marvin hefur stundað skriftir síðan 1997. Sögur eftir hann hafa birst í smásagnakeppnum og árið 2013 vann hann Gaddakylfuna. Þetta stendur m.a. aftan á bókarkápu. En Róbert hefur átt smásögur í amk. Tveimur smásagnasöfnum svo hér er ekki um neinn nýgræðing að ræða.
Hans fyrsta skáldsaga ,, Konur húsvarðarins“ ber þess merki að þarna er hæfileikaríkur höfundur á ferð.
Aðalpersónan er skrímsli sem Róbert Marvin tekst afar vel að skapa svo það vekur upp hroll. Bókin er afskaplega vel skrifuð. Það er stundum flökkt aftur og fram í tímann og einnig fannst mér sumir kaflarnir vera líkast smásögu, en þeir tvinnast fljótt og vel inn í söguþráðinn.
Það er mikil spenna í bókinni, óhugur og grimmd allsráðandi. Sagan er látin gerast hér á landi en mér finnst ekki trúverðugt að svona hræðilegir atburðir eigi sér stað hérna í okkar samfélagi. Skelfing, ótti, samtök…
Fléttan er ansi víð en mjög góð. Maður veit aldrei hvað kemur næst.
Ég vil ekki skrifa um söguþráðinn, vil ekki láta neitt uppi. Fólk verður einungis að lesa og upplifa.
Endirinn kemur verulega á óvart en nokkrir lausir endar sem hefði mátt hnýta betur finnst mér.
Langar til að nefna kápuna, en hún á einstaklega vel við og einnig nafn bókarinnar.
,,Konur húsvarðarins“ eftir Róbert Marvin Gíslason er kyngimagnaður hryllingsspennuþriller. Ég opnaði bókina og byrjaði að lesa og lokaði henni ekki aftur fyrr en ég var búin með hana.