Rýni á Konur húsvarðarins

Hildur Enóla 2015/07/26 @ 13:41
“Hasar, hryllings-háspenna sem heldur fyrir manni vöku og veldur svo martröðum.”
☆☆☆☆½
Þó ég hafi verið búin að sjá hið frábæra bókasýnishorn sem höfundurinn hafði sett saman var ég samt engan vegin viðbúin því að bókin væri svona hrollvekjandi. Allt ógeðið kom mér gersamlega á óvart, enda er þetta ein beinskeyttasta hryllingsbók sem ég hef lesið. Það er lítið verið að fela undir yfirborðinu, glæpirnir og pyntingarnar eru beint í æð og ekki einu sinni saklaus börnin er óhult fyrir þessum glæpamönnum.
Spennan rígheldur manni við lesturinn og söguframvindan kemur sífellt á óvart. Það eru margar og fjölbreyttar sögupersónur og sjónarhornið fer á milli nokkurra aðalpersónanna. Skiptingin er alltaf skýr og afmörkuð af kaflaskiptum. Það gefur sögunni í heild sinni aukna dýpt að fá að upplifa hana bæði út frá sjónarhorni kvalalostafullra morðingja og fórnarlömba þeirra. Eini galli bókarinnar er að sögupersónur eru það margar að það verður smá saman erfitt að henda reiður á þeim og tengingunum á milli þeirra. Á móti kemur að sagan verður jafnvel ennþá betri við annan lestur.
Bók sem enginn spennufíkill ætti að láta fram hjá sér fara.
Ég gef bókinni 4 og ½ stjörnu.

Rýni frá Auði A. Hafsteinsdóttur

audur ryni