Ný umsögn á Goodreads

einarEinar Níelssen hefur skrifað umsögn um Konur húsvarðarins á Goodreads.

“Konur húsvarðarins er vel skrifuð bók. Textinn rann afskaplega mjúklega í gegn og í raun betur en í mörgum íslenskum bókum. Róbert er greinilega efnilegur rithöfundur og vert að fylgjast með honum í framtíðinni. Það er þó ekki hægt að segja að bókin sé án galla. Sumir kunna e.t.v. að kvarta yfir ofbeldi og að það sé ekki raunhægt í íslensku samfélagi en það er mjög ósanngjörn gagnrýni. Stephen King og Lee Child skrifa bækur sem eru algerlega ótrúverðugar en þykja hin besta skemmtun. Svo ég áfellist höfundinum ekkert að leyfa sér meira en íslenskur raunveruleiki bíður upp á.

Að mínu mati er annað sem höfundur hefði þurft að athuga. Ég hef heyrt að Konur húsvarðarins hafi upphaflega átt að vera smásagnasafn og það skín dálítið í gegnum textann. Sagan hoppar mikið til í tíma, persónur eru of margar og þeim er ekki gefið nægilega mikið pláss til að dafna og verða eftirminnileg. Þetta gerir söguþráðinn ruglingslegan og hefði til dæmis mátt sameina nokkrar persónur til að einfalda þræði sögunnar. Auk þess hefði meiri vinna leyft höfundi að bæta við hlutum sem hefðum styrkt mikilvægar persónur. Til dæmis kemur persóna í lokin sem hefur lítið verið fjallað um frá fyrstu blaðsíðum bókarinnar.

Bókin er hæfilega stutt sem ég kann vel að meta og próar eitthvað nýtt sem ég hef sjaldan séð í íslenskum bókmenntum. Ég mæli með henni fyrir þá sem hafa gaman af bandarískum fjöldamorðingja bókum. Þetta er aftur á móti ekki hefðbundinn íslenskur krimmi og hentar hún líklega ekki þeim sem vilja bara lesa eitthvað svipað og Arnald eða yrsu.”

Umsögn á Goodreads

Útgáfuhóf í bóksölunni IÐU

Ég ásamt hópnum smasogur.com heldum útgáfu hóf í bókabúðinni IÐU á Lækjargötu í dag klukkan 14:00. Þó veðrið hafi ekki boðið upp á þvæling þá kom fólk í jólaskapi til að fagna með okkur útgáfunni á smásagnasafninu Jólasögur. Þessi bók er safn af fjórtán jólasögum eftir níu höfunda. Fjöldi fólks mætti til að gleðjast með okkur og njóta upplesturs á sögunum sem og nettra veitinga.

Ég á þrjár sögur í þessarri bók.

  • Gjöf handa mömmu
  • Minning
  • Þegar jólasveinninn villtist

útgáfuhóf

Jólasögur eru í einkasölu hjá bóksölunni IÐU, en það er einnig möguleiki að panta hér af vefsíðunni. Bókin var prentuð í takmörkuðu upplagi og er von á að hún seljist fljótt upp.
Ef viðtökur eru góðar þá má vel vera að bókin verði endurprentuð árlega, þar sem sögurnar eru í raun tímalausar og fullkomnar sem jólagjöf.

Við hjá Smásögum þökkum starfsfólkinu í IÐU fyrir alla aðstoðina og vonum að lesendur njóti þess að lesa sögurnar okkar með nokkrum konfekt molum.

Gleðileg jól.

 

Gefðu jólasögur í jólagjöf

coverSmásagnasafnið Jólasögur sem hópurinn Smásögur gefur út fyrir þessi jól hefur að geyma fjórtán frábærar smásögur eftir níu rithöfunda. Höfundarnir túlka allir jólastemminguna á afar ólíkan hátt. Samt tekst þeim öllum að fanga lesandann og draga hann inn í hugarheim jólanna.

Hér eru fjölskyldur sameinaðar og sundraðar. Ástin leynist í jólaösinni, á meðan aðrir syrgja. Reiður draugur mætir í jólamessuna. Litlir fuglar syngja glæður í ástina og gefa einmana sálum von um betra líf. Nágrannar keppast um að vera með bestu jólaskreytinguna. Börnin líða fyrir jólastressið og sumar jólagjafir verða skelfingu lostnar, þegar þeim er pakkað inn. Ástfangin geimvera birtist á sjálfan aðfangadag. Jólasveinarnir villast og kannski flytur norn í bæinn.

Já allt getur gerst og allir í fjölskyldunni ættu að geta fundið sína uppáhalds jólasögu.

Bókin kemur í takmörkuðu upplagi og má tryggja sér eintak með að kaupa hana hér á vefnum.

Smelltu hér til að gefa Jólasögur í jólagjöf.

 

Rýni frá Auði A. Hafsteinsdóttur

auduAuður A. Hafsteinsdóttir Róbert Marvin hefur stundað skriftir síðan 1997. Sögur eftir hann hafa birst í smásagnakeppnum og árið 2013 vann hann Gaddakylfuna. Þetta stendur m.a. aftan á bókarkápu. En Róbert hefur átt smásögur í amk. Tveimur smásagnasöfnum svo hér er ekki um neinn nýgræðing að ræða.
Hans fyrsta skáldsaga ,, Konur húsvarðarins“ ber þess merki að þarna er hæfileikaríkur höfundur á ferð.
Aðalpersónan er skrímsli sem Róbert Marvin tekst afar vel að skapa svo það vekur upp hroll. Bókin er afskaplega vel skrifuð. Það er stundum flökkt aftur og fram í tímann og einnig fannst mér sumir kaflarnir vera líkast smásögu, en þeir tvinnast fljótt og vel inn í söguþráðinn.
Það er mikil spenna í bókinni, óhugur og grimmd allsráðandi. Sagan er látin gerast hér á landi en mér finnst ekki trúverðugt að svona hræðilegir atburðir eigi sér stað hérna í okkar samfélagi. Skelfing, ótti, samtök…
Fléttan er ansi víð en mjög góð. Maður veit aldrei hvað kemur næst.
Ég vil ekki skrifa um söguþráðinn, vil ekki láta neitt uppi. Fólk verður einungis að lesa og upplifa.
Endirinn kemur verulega á óvart en nokkrir lausir endar sem hefði mátt hnýta betur finnst mér.
Langar til að nefna kápuna, en hún á einstaklega vel við og einnig nafn bókarinnar.
,,Konur húsvarðarins“ eftir Róbert Marvin Gíslason er kyngimagnaður hryllingsspennuþriller. Ég opnaði bókina og byrjaði að lesa og lokaði henni ekki aftur fyrr en ég var búin með hana.

Rýni á Konur húsvarðarins

Hildur Enóla 2015/07/26 @ 13:41
“Hasar, hryllings-háspenna sem heldur fyrir manni vöku og veldur svo martröðum.”
☆☆☆☆½
Þó ég hafi verið búin að sjá hið frábæra bókasýnishorn sem höfundurinn hafði sett saman var ég samt engan vegin viðbúin því að bókin væri svona hrollvekjandi. Allt ógeðið kom mér gersamlega á óvart, enda er þetta ein beinskeyttasta hryllingsbók sem ég hef lesið. Það er lítið verið að fela undir yfirborðinu, glæpirnir og pyntingarnar eru beint í æð og ekki einu sinni saklaus börnin er óhult fyrir þessum glæpamönnum.
Spennan rígheldur manni við lesturinn og söguframvindan kemur sífellt á óvart. Það eru margar og fjölbreyttar sögupersónur og sjónarhornið fer á milli nokkurra aðalpersónanna. Skiptingin er alltaf skýr og afmörkuð af kaflaskiptum. Það gefur sögunni í heild sinni aukna dýpt að fá að upplifa hana bæði út frá sjónarhorni kvalalostafullra morðingja og fórnarlömba þeirra. Eini galli bókarinnar er að sögupersónur eru það margar að það verður smá saman erfitt að henda reiður á þeim og tengingunum á milli þeirra. Á móti kemur að sagan verður jafnvel ennþá betri við annan lestur.
Bók sem enginn spennufíkill ætti að láta fram hjá sér fara.
Ég gef bókinni 4 og ½ stjörnu.

Rýni frá Auði A. Hafsteinsdóttur

audur ryni